Fréttir

Enginn slasaður, en nú munaði ekki miklu!

Vegsummerki fyrst um morguninn
Vegsummerki fyrst um morguninn
1 af 8

Bryggjan á Reykhólum er í stanslausri notkun. Það var því talsvert áfall að koma að bryggjunni um morguninn 26. júlí. Í ljós kom að um nóttina hafði þilið að sunnaverðu gefið sig. Bryggjukanturinn með pollum, netaborði og samanbrotnum þangpokum var allt farið í sjóinn.

Málið var rætt á daglegum morgunfundi starfsmanna og viðbrögð skipulögð. Báti var skotið á flot til að skoða betur vegsummerki og myndir teknar. Enginn hafði verið á ferli um nóttina en sjálfvirk myndavél gat sýnt að atvikið hafði gerst á nokkrum sekúndum.  Uppúr miðnætti hvarf bryggjuþillið og bryggjukanturinn. En á meðan starfsmenn voru á fundi, 8klst eftir fyrra hrunið féll stór hluti af bryggjugólfi á einu bretti. Þakka mátti fyrir að ekki féll meira efni og þar með undan krananum sem stóð þá utarlega á bryggjuhausnum eins og meðfylgjandi myndir sýna. 

Eftir athuganir, fundi, tilkynningar til sveitarfélags, Vegagerðar og víðar, var reynt að meta hvernig Þörungaverksmiðjan gæti best brugðist við. Hér leit út fyrir að starfsemi myndi lamast um óákveðinn tíma.

Vegagerðin brást hratt við og kallaði til verktaka til bráðabirgðaviðgerðar. Snarlega var fyllt upp í skarðið með möl úr hérði og þjappað duglega. Smám saman fylltist sæmilega upp í skarðið og þá tókst að keyra kranann heim í hlað um um nóttina.

En sjórinn, flóð, fjara og harðir straumar gáfust ekki upp. Daginn eftir var stór hluti að ofaníburðinum horfinn aftur í hafið.
Vegagerðin hefur að undanförnu verið að undirbúa endurnýjun á stálþilinu sunnan við bryggjna.

Til stendur að gera bryggjuna þannig úr garði að stærri flutningaskip geti lagst að, enda mikill útflutningur sem fer þá leiðina til viðskiptavina. Einnig mun aðstaða fyrir tækin batna, meira rými gefst til að snúa við. En við þennan undirbúning var grafið burt efni sem hefur líklega stutt við gamla þilið. Efnið milli þilja að norðan og sunnan hefur gefið sig á undanförnum áratugum svo að þrátt fyrir smáviðgerðir er kominn tími á að endurnýja kantinn allan hriginn. Vonandi verður því flýtt svo að sem minnst röskun verði á starfseminni.

Aðalatriðið er að starfsmenn séu óhultir við öll sín störf.
Þörungaverksmiðjan, og allt starfsfólk hennar slapp með skrekkinn. En miðað við sjálfvirkar upptökur í skipinu tók aðeins nokkrar sekúndur fyrir efni og klæðningu að falla í sjóinn. Þarna fór því allt vel. Enginn slasaðist og ungu mennirnir sem voru að undirbúa löndun eru allir heilir. 
Starfsemin heldur áfram og nú er landað frá öðrum stað innan hafnarinnar.