Frágangur holu
Nokkrar staðreyndir:
Íslenska ríkið á heita vatnið sem um ræðir í jörðu á Reykhólum. Á Reykhólasvæðinu eru tvær hitaveitur. Báðar nýta
vatnið með nýtingarleyfi og með samningum við ríkið. Þörungaverksmiðjan hf., ÞV, á og rekur hitaveitu til eigin nota; þrjár borholur, leiðslur, dælur, stýringar og annað sem til þarf. Orkubú Vestfjarða, OV, á þrjár borholur og rekur hina hitaveituna. Sem stendur er leyfilegt að nota 35 L/sek af heitu vatni á svæðinu sem gefur af sér um 40 L/sek af sjálfrennandi heitu vatni. Hitaveiturnar eru ekki samtengdar. Hitaveita ÞV er þrefalt stærri en hitaveita OV.
Í rúm 11 ár hefur Þörungaverksmiðjan þjónustað Norður & Co, N&Co, um heitt vatn þegar eðlilegra væri að það væri í höndum OV.
Rangfærslur og leiðréttingar:
Í frétt DV er ÞV gerð að blóraböggli vegna stöðu N&Co. Í greinargerð frá Reykhólahreppi vegna fundarboðs þann 14. 08. 2024 var skrifað: „Þörf er á að endurnýja og byggja upp hluta hitaveitukerfis Orkubús Vestfjarða (OV) á Reykhólum. Skiptir þar mestu endurnýjun á borholu RH-02 sem er sem stendur meginborhola OV á svæðinu og sinnir heitavatnsþörf þorpsins og saltvinnslunnar að mestu“. Þarna er rangt farið með og þrátt fyrir ábendingar hafa gögnin ekki verið leiðrétt. DV heldur þessu svo enn á lofti. Hið rétta er: Ekkert vatn úr holum Orkubúsins fer eða hefur nokkurn tíma farið til
saltverksmiðjunnar, Norður & Co. Orkubú Vestfjarða hefur þó átt og rekið hitaveitu Reykhóla frá árinu 1996.
Þegar N&Co. hóf starfsemi á árinu 2013 var ætlunin að nýta affall ÞV til framleiðslu á salti. Gerður var samningur milli ÞV og N&Co. til 10 ára. Samið var um tvennt:
1) N&Co. fékk allt heitavatns-affall frá ÞV til ráðstöfunar.
N&Co. áttaði sig fljótlega á að ekki er hægt að nota annað en fullheitt vatn til saltframleiðslu. N&Co. hætti að nýta affallið en vildi ekki gefa frá sér samninginn um það. ÞV gat ekki ráðstafað því til annarra vegna þessa fyrr en sumarið 2023.
2) 5 L/sek af fullheitu vatni.
Þessir litrar hafa alltaf komið úr holum ÞV. OV hefur ekki þjónustað N&Co að þessu leyti. Uppleggið í samningi ÞV og N&Co. var að N&Co. myndi gera samning við OV um að útvega allt að 10 L/sek af 100 °C heitu vatni. 10 ára svigrúm samningsins var ekki notað til þess.
Í september 2022, um níu mánuðum áður en samningurinn rann út, framlengdi ÞV einhliða þennan 10 ára samning um eitt ár til þess að OV og N&Co. fengju enn aukið ráðrúm til að hanna, semja og leggja búnað svo að OV tæki yfir að þjónusta N&Co um heitt vatn. ÞV hvatti N&Co. og OV til að nota tímann og marg ítrekaði að samingurinn yrði ekki framlengdur. Engu að síður sigldi N&Co. inn í sumarið 2024 án samninga um kaup á heitu vatni.
Vorið 2024 gat ÞV loks fullnotað sína eigin hitaveitu og naut þá ávaxta af áralangri vinnu við endurnýjun, viðhald og breytingar á búnaði ÞV sem skilaði t.d. auknum afköstum og betri nýtingu á hita.
Framhaldið og núverandi staða
N&Co. átti í vanda vorið 2024 enda vatns-og samningslaust. ÞV sá því fljótlega aumur á N&Co og minnkaði sína notkun og beindi vatni til N&Co. Afköst verksmiðju ÞV minnkuðu við það um 5 – 10 %.
ÞV greip til fleiri úrræða. Þegar stopp varð á framleiðslu ÞV vegna veðurs eða vélabilana var meira vatni beint til N&Co. Þegar hægði á framleiðslu um haustið vegna veðurs og óreglulegri þangöflunar var enn bætt á rennslið. Í viðhalds-stoppi hefur ÞV einnig beint vatni til N&Co.
Þetta vatn er allt sjálfrennandi úr holum ÞV; nýtingin er því sjálfbær. Vatninu er dælt frá þorpinu til Karlseyjar til að halda jöfnum þrýstingi. OV kemur hvergi að þessu nema á þann hátt að hafa heimild til orkunýtingar og rétt til að selja. ÞV rukkar N&Co. fyrir kostnað við dælingu og leigu á búnaði.
Það er þess vegna mjög villandi að skrifa eingöngu að ÞV hafi skrúfað fyrir vatn til N&Co. ÞV skrúfaði frá vatni til N&Co. og bjargaði verksmiðju þess frá því að vera óstarfhæf. Spyrja má hver sé í stríði við hvern ? Og kannski hvers vegna?
Í grein DV stendur : „Þeir vildu ekki að Orkubúið væri að leiða sitt vatn í gegnum þeirra búnað. Heldur kæmu sjálfir vatni til aðilans.“ Aftur: Það fer ekkert vatn frá holum OV til N&Co. OV hefur aldrei komið nálægt flutningi á heitu vatni til N&Co. og hefur enga milligöngu um eitt né neitt. Heitu vatni til N&Co. hefur í 11 ár verið veitt eftir leiðslum ÞV úr holum ÞV.
Það er mikil einföldun og villandi að fullyrða að ekkert standi í vegi fyrir því að ÞV og OV semji um flutning á heitu vatni frá OV fyrir saltverksmiðjuna nema „kaup og kjör milli þessara tveggja aðila“. ÞV sækist eftir að nýta sjálf sínar holur og búnað og vill að OV þjónusti N&Co. eins og alltaf stóð ti
Fleiri villur í grein DV
Þörungaverksmiðjan, er sögð stofnuð 1976: Það er ekki rétt. ÞV var stofnuð árið 1986, svo sem kennitala félagsins ber með sér. Þá keypti ÞV eignir þrotabús Þörungavinnslunnar hf., þ.m.t. borholur og önnur mannvirki hitaveitu hennar. Þeim
hefur öllum verið vel haldið við.
ÞV er sögð í meirihluta eigu norskra aðila. Það er ekki rétt. Félagið er að meirihluta í eigu alþjóðlegs fyrirtækis, IFF, International Flavors and Fragrances, sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Eignarhlutir IFF og Byggðastofnunar í ÞV nema samtals 99,25%. Hreppurinn á 0,21%.
Stjórnarmenn eru þrír; Norðmaður, Skoti og Íslendingur. Flestir starfsmenn búa í og borga útsvar til Reykhólahrepps, um 25 manns. Verksmiðjan er rekin með ágætri afkomu og greiðir skatta og auðlindagjöld til ríkis og landeigenda undanbragðalaust og af ánægju.
Lifið heil á nýju ári !
Finnur Árnason, framkvæmdastjóri.