Fréttir

Kolefnisbinding í trjágróðri

Hluti þess sem gróðursett var, birki, greni og fura
Hluti þess sem gróðursett var, birki, greni og fura
1 af 4

Þörungaverksmiðjan hafði samband við Skógræktarfélagið Björk til að kanna möguleika þess að kolefnisbinda útblástur skips og pramma með því að planta trjáplöntum í Barmahlíð. Þetta samstarf gekk auðveldlega upp. Reiknað var út hve mörg tré af blönduðum tegundum þyrfti til að binda allan koltvísýringsútblástur síðasta árs og keypt tré í samræmi við það. Síðan fóru 11 starfsmenn föstudaginn í fyrstu viku júní í útigalla, fengu geyspur hjá skógræktarfélaginu og brunuðu í Barmahlíð. Þar voru gróðursett um 1800 tré í sigðlaga lund syðst í skógræktargirðngunni rétt undir Svartagili. Að sjálfsögðu var notað þörungamjöl sem áburður.

Menn drógu ekki af sér og kláruðu verkið á 2,5 tímum. Þarna mun vaxa upp vonandi skjólgóð sigð úr furu, greni og birki við lækinn. Ekki væri verra ef síðar tækist að setja upp svolítinn pall og brú við lundinn. Þótt unga fólkið hafi ekki verið öflugt í skógræktinni kaus það hiklaust um heiti á skógarlundinn. Partílestin skal staðurinn heita.