Fréttir

Öskudagur 2020

elstu bekkingarnir
elstu bekkingarnir
1 af 3

Eins og venjan er á Íslandi í byrjun páskafösta eða lönguföstu banka börn uppá  heimili og fyrirtæki. Krakkar eru klæddir í búninga, sýna sig og safna sælgæti með því að syngja. Rætur þessarar venju eru nokkuð fornar. Vikan byrjar á mánudegi - bolludegi. Þá bjóða heimili og bakarí upp á alls konar bollur. Fiskibollur og kjötbollur eru aðalrétturinn en með kaffinu og í eftirrétti eru hafðar  sætar bollur fylltar með rjóma og sultu. Svo kemur þriðjudagurinn, sprengidagur, - ofeldisdagur - þegar maturinn á að vera feitur og fyllandi, venjulega í formi baunasúpu sem soðin er á söltu lambakjöti eða hrossakjöti og neytt í ofurmagni (minnir auðvitað á mardi gras). Að lokum á miðvikudaginn, sem nefnist þá öskudagur, ráfa krakkarnir á milli húsa og syngja. Það er gert með ýmsu móti á mismunandi stöðum og hefur á síðustu áratugum breyst frá því að hengja litla óvelkomna heimagerða taupoka á fólk til þess að safna nammi. Nánari upplýsingar um þessar hefðir er að finna á íslensku á íslensku wikipediu . Í það minnsta þakkar Þörungaverksmiðjan fyrir heimsóknina og vonast til að sjá ykkur á næsta ári. - Með fjölbreyttan og fallegan söng. 


Þetta verður endurtekið og þá með sögulegu ívafi

Mikið var gaman að hafa opið hús. Það skrifuðu sig 38 í gestabók. Eldri borgarar, heiðursborgarar, börn og nýbúar, glæsileg mæting. Ætli 38 þyki ekki harla gott mitt í jólaönnum og frosthörkum? Það var mikið spurt og eldri starfsmenn höfðu frá mörgu að segja. Halldóra Játvarðardóttir sagðist hafa sagt sínum leiðsögumanni margt um það liðna á leið í gegnum verksmiðjuna. Og henni kom einmitt á óvart hvað margt er öðruvísi en var, þrátt fyrir að starfsemin sé að kjarna til nákvæmlega sú sama. Börnin fengu líka fínar sögur og margt að skoða. 

Það komu bændur og nýir íbúar í Reykhólahreppi. Það komu íbúar sem voru gagnrýnir og aðrir sem voru hæstánægðir. Alla vegana var mikið skrafað á kaffistofnunni. Gestir dreifðust vel yfir daginn og farnir voru könnunarleiðangrar um alla króka. Þörungaverksmiðjan þakkar innilega öllum þeim sem sáu sér fært að líta inn. 

Maddi mætti snemma og sagði frá samskiptum sínum við Sigurð Hallsson og erlendu þörungastúlkuna sem hann kom með til að spegúlera í sjávargróðrinum. Hvort hún var júgóslavnesk eða frönsk, það komst ekki alveg á hreint. Inda mundi líka eftir tilraunum til þurrkunar við gaflinn á sundlaugarhúsinu. Gummi á Grund rifjaði upp fyrstu sprengingar í Karlsey í fylgd starfsmanna Hafrannsóknarstofnunar. Og um alls kyns annars konar þurrkun sem ollu skitu í frægum hundi. Þetta eru óborganlegar sögur. Og kannski eru til einhvers staðar myndir frá upphafsárum Þörungaverksmiðjunnar. 

Hér með er tilkynnt að þetta verður sannarlega endurtekið. Og það á betri árstíma þegar dagur er lengri og betur stendur á. Næsta skipti verður helgað sögu Þörungaverksmiðjunnar-Þörungavinnslunnar og rekstri Heimamanna. Ef nú íbúar og góðir grannar eiga sögulegt myndefni af starfsemi og vinnandi fólki, tækjum og öðru þörungatengdu í fórum sínum frá tímabilinu 1958-2019, eru þeir hér með sannarlega beðnir um að koma þeim til Finns, nú eða Maríu, sem reyndar hafði veg og vanda að þessu fyrsta opna húsi í langan tíma. Gleðileg þarajól.  


Nefndu nafn mitt ef þér liggur lítið við

Guðmundur Ólafsson
Guðmundur Ólafsson
1 af 3

Þetta sagði Halldór Laxness og meinti að hann gæti gert mönnum góða greiða þegar mikið lægi við. Í óveðrinu í vikunni varð rafmagnslaust á Reykhólum. Í sumar var sett upp viðbótar-ljósavél til að styðja við þá gömlu hjá Orkubúinu. Guðmundur á Grund hafði verið á sólarhringsvakt þegar heldur voru farnar að minnka olíubirgðirnar. Bræðurnir Bolli og Óli Smárasynir voru á fartinni en Bjössi Sam sótti um leyfi hjá Þörungaverksmiðjunni til að deila birgðum af dísli svo reka mætti varaaflstöðvarnar lengur. Það fór svo að þeir Bjössi voru frá hádegi til miðnættis að ferja olíu á milli. Eitthvað var um bilanir í varakerfinu en að lokum komst allt af stað. Þetta þýddi að dælur virkuðu til að koma hitaveitunni í gang á Reykhólum þó að sums staðar í sveitunum væri orðið kalt í húsum. Þannig er gott að eiga góða að, þá sem vilja lána og þá sem bregðast við þegar lítið liggur við. 


Fjallað um þörunga í Iceland review

Nokkrar greinar í Iceland Reveiw, sem er tímarit á ensku um íslensk málefni, fjalla um þörunga. Þarna er lýst íslenskri hollustu og hvernig söl, sem eru handtínd, rata á veisluborð í Danmörku og Englandi. Einnig er viðtal við Eydísi sem heldur utan um húðvöruframleiðandann Zeto. Keresis sem nýtir trefjar innan úr fiskroði til að halda saman sárum er í annarri grein, en það er einnig vestfirskt fyrirtæki. Nokkrar myndir fylgja greininni og er ein af Þörungaverksmiðjunni.  


Opið hús á föstudag 13. desember milli 13 og 17.

Haustþörungar
Haustþörungar

Það hefur margt breyst hjá Þörungaverksmiðjunni Thorverk á undanförnum árum. Núna viljum við sýna ykkur innfyrir. Þann 13. desmeber, núna á föstudag, verður opið hús. Komið og sjáið nýju blásarana, birgðirnar, breytta eldhúsið, kynninguna í kaffistofunni og hittið starfsfólkið sem getur sýnt ykkur í alla króka og kima. Verið velkomin, heitt á könnunni, gos fyrir börnin og glaðningur, ef allt skilar sér með póstinum. Opið milli kl 13 og 17.  


Hluthafafundur - breytingar á samþykktum félagsins.

Stjórn Þörungaverksmiðjunnar hf. hefur boðað til almenns hluthafafundar í félaginu miðvikudaginn 16. október 2019. Öllum hluthöfum hefur verið sent bréf vegna þessa. Eitt mál er á dagskrá: Að breyta samþykktum félagsins.

Stungið er upp á því að bæta í samþykktir félagsins ákvæði um forkaupsrétt til kaupa á eignarhlutum í félaginu sem eru til sölu:

Annars vegar skuli stjórn félagsins, fyrir hönd félagsins sjálfs, eiga forkaupsrétt á hlutum sem eru til sölu. Hins vegar, ef stjórnin afþakkar kaupin, skulu hluthafar eiga forkaupsrétt á þeim hlutum sem eru til sölu í hlutfalli við hlutafjáreign sína.

Fundurinn verður miðvikudaginn 16. október 2019, kl 11 árdegis á skrifstofu félagsins í Karlsey, 380 Reykhólum. Allir hluthafar eða fulltrúar þeirra eru velkomnir.

 


Þörungaverksmiðjan styður Mottumars

Á myndinni eru Unnsteinn, Hlynur, Björgvin Pálmi, Finnur, Jón, Fanney, Styrmir, Helgi, Jóhannes og Játvarður.
Á myndinni eru Unnsteinn, Hlynur, Björgvin Pálmi, Finnur, Jón, Fanney, Styrmir, Helgi, Jóhannes og Játvarður.
1 af 3

 

Þörungaverksmiðjan keypti sokkapör á alla starfsmenn sína. Kaupin voru til að styrkja átaksverkefni Krabbameinsfélagsins og til að minna starfsmenn á að staldra við og kynna sér einkenni krabbameins og aðrar ábenindagar frá verkefninu, https://www.mottumars.is .

Tilefnið var notað til að taka myndir af nokkrum okkar í sokkunum góðu. Ekki er verra að sokkana prýðir andlitsmynd af einum okkar. Eða tveimur !

Á vikulegum öryggisfundi var svo rennt yfir ábendingar  frá Mottumars.


Ánægjudvöl í Krakau

Starfsólk Thorverks og viðhengi þeirra, fóru til Krákár í Póllandi í September 2017. Þar var farið í skoðunarferðir og verslunarleiðangra eins og enginn væri morgundagurinn. Það var Arthur sem hafði veg og vanda af dagskránni en honum til halds og traust var Helgi.  Hópurinn hreppti prýðilegt veður og bros var á hverju andliti í ferðarlok. Teknar voru margar myndir, ekki síst af fararsjórum og leiðsögumönnum, skotæfingum og matarveislum. 


Ágústa flutti fyrirlestur hjá VÍS um öryggismál

Ágústa í pontu
Ágústa í pontu

Ágústa Ýr Sveinsdóttir öryggis- og framleiðslustjóri Þörungaverksmiðjunnar var fulltrúi okkar á hinni árlegu  forvarnarráðstefnu VÍS eða Vátryggingafélags Íslands. Ráðstefnan var vel sótt og var til þess tekið að Ágústa hafi komið fulltrúum ráðstefnunnar til að hlæja nokkrum sinnum. Víst er að hróður Þörungaverksmiðjunnar vegna árangurs í öryggis- og slysamálum er að berast út. 

Að þessu sinni var það Síminn sem fékk forvarnarverðlaun VÍS en öryggismál eru almennt að komast á dagskrá í íslenskum atvinnuvegum. 


Reykskynjarar á heimili allra starfsmanna

Hér gleðst Eggert yfir reykskynjurunum !
Hér gleðst Eggert yfir reykskynjurunum !
1 af 2

Á morgunfundi í síðustu viku barst í tal að vetur er framundan með dimmu og hálku. Líka það að með minnkandi dagsbirtu notar fólk gjarnan kerti til að lýsa upp heimili sín. Þeim fylgir því miður aukin eldhætta og hana ræddum við og þá auðvitað reykskynjara. Til að hafa allt á hreinu ákvað verksmiðjan að gefa hverjum starfsmanni reykskynjara - og rafhlöðu!

Á sama fundi bentu starfsmenn á að slökkvitækin í skólanum, þar sem við borðum yfirleitt í hádeginu, eru ekki merkt með endurskinsmerkjum. Að fengnu leyfi skóla- og sveitarstjóra splæstum við auðvitað í ný merki og munum setja þau upp á næstu dögum.